Æfingar eru nauðsyn í kjölfar áfalls

HL Geta er metin, segir Sólrún Óskarsdóttir, af læknum, sjúkraþjálfurum og fagfólki sem jafnframt leiðir hópana og fjölbreyttar æfingar þeirra. Til vinstri er Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir læknir og formaður stjórnar stöðvarinnar.

HL Geta er metin, segir Sólrún Óskarsdóttir, af læknum, sjúkraþjálfurum og fagfólki sem jafnframt leiðir hópana og fjölbreyttar æfingar þeirra. Til vinstri er Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir læknir og formaður stjórnar stöðvarinnar. Um 400 manns á öllum aldri stunda reglulega æfingar hjá HL stöðinni við Hátún í Reykjavík, en næstkomandi þriðjudag, 1. apríl, verður haldið upp á 25 ára afmæli hennar. Forsaga HL stöðvarinnar sú að fólk sem hafði verið saman á Reykjalundi í endurhæfingu eftir hjartaaðgerðir vildi halda árangri sínum við. Það myndaði óformlega hópa en vantaði bæði aðstöðu og leiðsögn fagfólks. Því tóku félagar í Hjartaheill, SÍBS og Hjartavernd höndum saman og stofnuðu HL stöðina árið 1989. Í HL stöðinni æfir fólk sem glímir við hjarta- og lungnasjúkdóma, hefur fengið áföll og þarf að byggja upp þrek að nýju, segir Sólrún Óskarsdóttir framkvæmdastjóri.


Nærri 700 manns hér á landi, það er fólk á aldrinum 25-75 ára, fá bráða kransæðastíflu ár hvert. Margir glíma við afleiðingarnar það sem eftir er ævinnar. Á ári hverju fara um 1.600 einstaklingar í kransæðaþræðingu og þar af um 700 í kransæðavíkkun. Á bilinu 200 til 250 manns fara í viðameiri aðgerðir, svo sem hjáveitu- og lokuaðgerðir, að sögn Þórdísar Jónu Hrafnkelsdóttur hjartalæknis og formanns stjórnar HL stöðvarinnar.

Endurhæfing í þremur skrefum
Þótt hjartaaðgerðir séu mikilvægar duga þær ekki einar og sér. Endurhæfing og stöðug þjálfun er nauðsynleg og er skipt í þrjú skref, segir Þórdís Jóna. Fyrsta skref endurhæfingar er tekið á sjúkrahúsi þar sem fólk er hvatt til að fara á fætur og stikla um ganga og stiga. Næsta skref er endurhæfing á Reykjalundi eða í HL stöðinni. Þriðja skrefið er svo áframhaldandi þjálfun á HL eða almennum líkamsræktarstöðvum.

Fólki sem hefur greinst með langvinna lungnasjúkdóma eða farið í aðgerðir á brjóstholi býðst samsvarandi þjónusta og hjartasjúklingum. Endurhæfing og þjálfun er mikilvæg fyrir þennan hóp. Þeir sem hingað koma eru misjafnlega á vegi staddir við komuna hingað. Því röðum við fólki hópa eftir niðurstöðum úr þrekprófi. Alls erum við með 21 hóp sem við röðum í eftir styrk, segir Þórdís.

Auðvelt að grípa inn í
Getu segir Sólrún Óskarsdóttir metna af læknum, sjúkraþjálfurum og öðru fagfólki sem jafnframt leiðir hópana og æfingar þeirra, sem eru fjölbreyttar. Eftir upphitun eru gerðar ýmsar æfingar, á dýnum, pöllum, í tækjasal, stöðvaþjálfun, leikið blak og svo framvegis. Hver og einn gerir æfingarnar eftir sinni getu og þá í samráði við fagfólk.
 
Í tímunum er fylgst með líðan, viðbrögðum og álagi á hverjum og einum. Gerðar eru mælingar og vakni grunur um að eitthvað óeðlilegt sé í gangi er auðvelt að grípa inn í. Sú var tíðin að fólk sem fékk hjartasjúkdóma var hvatt til þess að fara sér hægt eftir áföll. Styrktaræfingar hverskonar þóttu hættuspil. Nú þykja þær hins vegar jafn nauðsynlegar og aðrar breytingar á lífsstíl í kjölfar áfalls, segir Sólrún.

Lífssýnin breytist
Veikindi eru alltaf ófyrirséð og raska lífi fólks mikið. Heilbrigður lífsstíll getur hjálpað fólk, en illa og raunar alls ekki verður ráðið við suma áhættuþætti hjartasjúkdóma svo sem kyn, aldur og fjölskyldusögu. Aðrir þættir sem vegið geta þungt en eru viðráðanlegir eru reykingar, áunnin sykursýki, ofþyngd, streita og hreyfingaleysi.

Það að greinast með hjarta- eða lungnasjúkdóm er mikið áfall. Lífssýn margra breytist og þetta tekur á andlega og ekki síður líkamlega. Því hjálpar mörgum að hitta fólk sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu, fá stuðning þess og ráð og líka bara skemmtilegt spjall um daginn og veginn, segir Sólrún að síðustu.
 
Morgunblaðið föstudaginn 28. mars 2014

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *