
Einfalt að safna
Það er einfalt fyrir hlaupara að stofna aðgang á hlaupastyrkur.is og safna áheitum. Byrja þarf á því að skrá sig í hlaupið á marathon.is. Í skráningarferlinu er hægt að velja eitt af skráðum góðgerðafélögum og stofnast þá viðkomandi sjálfkrafa á hlaupastyrkur.is að skráningu lokinni. Einnig geta skráðir hlauparar farið beint inn á hlaupastyrkur.is og stofnað aðgang í örfáum einföldum skrefum. Hægt er að deila söfnunarsíðu hlaupara á samfélagsmiðlum og hvetja þannig vini og vandamenn til að heita á sig. Hver sem er getur farið inná hlaupastyrkur.is og heitið á skráða hlaupara. Hægt er að greiða áheit með kreditkorti, millifærslu eða með því að senda sms skilaboð.
Hlaupið í krafti fjöldans
Einstaklingar geta merkt sig í hóp og safnað í krafti fjöldans. Þessi möguleiki kom nýr inn í fyrra og getur verið hentugur fyrir fyrirtækjahópa, vinahópa, saumaklúbba o.fl. sem vilja standa saman að því að safna fyrir hin ýmsu málefni. Nánari upplýsingar um skráningu hlaupahópa má finna hér.
Þakkir til hlaupara
Í byrjun ágúst fá allir skráðir góðgerðahlauparar póst frá okkur með upplýsingum um heimasíðu félagsins sem þeir hlaupa fyrir. Í póstinum verða hlauparar hvattir til að kynna sér starfsemi félagsins og skrá sig á póstlista þar sem það er í boði. Þetta er okkar leið til að aðstoða félögin við að ná tengingu við hlaupara þar sem ekki hefur fundist einföld tæknileg útfærsla á að gera það á annan hátt eins og nokkur félög hafa óskað eftir. Vonum við að þetta verði til góðs og hjálpi ykkur við að kynna ykkar málefni. Eins og áður vonum við að félögin fjölmenni út á braut á hlaupdag til að hvetja hlaupara til dáða. Við heyrum frá hlaupurum að það séu bestu þakkirnar sem hægt sé að fá og mikið betra en kveðja á pappír eða í tölvupósti.
Hlaupastyrkur.is á ensku
Viljum vekja athygli á því að hægt er að skoða hlaupastyrkur.is á ensku. Það gerir erlendum aðilum auðveldara að heita á hlaupara en einnig munu þeir fjölmörgu erlendu hlauparar sem taka þátt geta tekið þátt í áheitasöfnuninni.