Fundargerð stjórnar- og formannafundar Hjartaheilla 2014

Guðmundur Bjarnason formaður Hjartaheilla

á Grand Hótel, 26. september 2014 kl. 16:00

Guðmundur Bjarnason formaður HjartaheillaFormaður stjórnar, Guðmundur Bjarnason, setti fundinn og bauð fundargesti velkomna.  Sveinn Guðmundsson var tilnefndur fundarstjóri og Pétur Bjarnason fundarritari.

 

Til fundar voru mættir eftirtaldir: Guðmundur Bjarnason formaður, Sveinn Guðmundsson, varaformaður, og eftirtaldir stjórnarmenn: Sigurður Aðalgeirsson, Magnús Þorgrímsson, Valgerður Hermannsdóttir, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, Helga Þóra Jónsdóttir og Friðrik Ingvarsson. Óskar Árni Mar, formaður Styrktarsjóðs hjartasjúklinga, Haraldur Finnsson, skoðunarmaður reikninga, Guðmundur R. Óskarsson endurskoðandi, Valbjörg Jónsdóttir formaður uppstillingarnefndar og Pétur Bjarnason ritstjóri Velferðar.  Frá deildum mættu: Ólöf Sveinsdóttir Hjartaheill Suðurnesjum, Ólafur Magnússon, Hjartaheill Vesturlandi, Garðar Helgason, Hjartaheill Eyjafjarðarsvæði, Björg Björnsdóttir, Hjartaheill Suðurlandi, Karl Roth frá Neistanum og Árni Einarsson Hjartaheill Suðurnesjum. Að auki mættu stjórnarmennirnir Sigurður og Friðrik einnig fyrir deildir sínar, Hjartaheill Þingeyjasýslum og Hjartaheill Austurlandi. Þá var Kjartan Birgisson mættur af hálfu starfsmanna, en Ásgeir Þór Árnason var á spítala og Guðrún Bergmann erlendis. Gestir fundarins voru Karlotta Jóna Finnsdóttir bókari og Rúrik Kristjánsson sem annast hefur um söfnunarbaukana.

 

Gengið var til dagskrár.

Fyrst á dagskrá var skýrsla stjórnar, sem Guðmundur Bjarnason flutti. Hann bauð fundarmenn velkomna til þessa sameiginlega stjórnarfundar og formannafundar sem væri í raun fyrir tvö ár, 2013 og 2014 þar sem enginn formannafundur var haldinn á s.l. ári svo sem lög samtakanna mæla þó fyrir um. Baðst hann, fyrir hönd stjórnar og framkvæmdastjóra, afsökunar á þessu.

 

Guðmundur sagði starfsemina hafa gengið vel og þakkaði starfsmönnum fyrir störf sín og samstarfið, sem og meðstjórnarmönnum sínum en nokkrar breytingar urðu á stjórninni á síðasta aðalfundi, þegar Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, Friðrik Ingvarsson, Jónína Eyja Þórðardóttir og Helga Þóra Jónsdóttir komu inn sem nýir stjórnarmenn. Guðmundur sagðist að jafnaði mæta á skrifstofunni einu sinni í viku, á miðvikudagsmorgnum, og taka þátt í verkefnum þar. Kjartan Birgisson var í des. 2013 ráðinn í hlutastarf en hafði áður unnið mikið og gott starf sem sjálfboðaliði og gerir enn, því hann vinnur nær fullan vinnudag. Breyting varð nýlega á stjórn Neistans þegar Fríða Björg Arnardóttir tók við formennsku af Guðrúnu Bergmann sem hafði verið þar í 10 ár, þar af 9 ár sem formaður.

 

Almennt félagsstarf, s.s. fundahöld með fræðslu fyrir almenning, hefur því miður ekki verið mikið að undanförnu enda ekki auðvelt að ná til fólks með slíkum hætti og áhugi á fundahöldum, að ekki sé talað um sjálfboðaliðastarf, mjög á undanhaldi. Vetrardagskráin, sem kynnt verður síðar á fundinum, ber þess merki að reynt verður að efla þennan þátt.

 

Þá er einnig rétt að geta sérstaklega þess mikilvæga þáttar í starfseminni sem söfnunarbaukarnir eru. Þeir eru farnir að gefa umtalsverðar tekjur, hátt í 6 millj. kr. á s.l. ári eða álíka mikið og árgjöldin sem þó voru hækkuð umtalsvert á síðasta aðalfundi eða úr kr. 2.100 í kr. 3.000, – svo sumum þótti nóg um. Vinnuna við söfnunarbaukana og árangur af þeirri fjáröflun má fyrst og fremst þakka Rúrik Kristjánssyni, sjálfboðastarfi hans og brennandi áhuga. Voru honum færðar sérstakar þakkir fyrir störf hans að þessu.

 

Þá gat hann um þátt í starfsemi skrifstofunnar, sem einkum hvílir á herðum Kjartans, verkefni sem gengur undir heitinu „Annað líf“. Samtök þessi, sem er áhugafélag um líffæragjafir, voru formlega stofnuð í mars á þessu ári en höfðu þó unnið að ýmsum verkefnum áður. Þátttakendur auk Hjartaheilla eru Samtök lungnasjúklinga og Félag lifrarsjúklinga. Fulltrúar þessara félaga hittast á óformlegum kaffifundum nær vikulega yfir veturinn. Í ágúst í fyrra tóku þrír fulltrúar þátt í Heimsleikum líffæraþega í Durban í Suður-Afríku og í haust verður haldið hér upp á samnorrænan líffæragjafadag. Guðmundur ræddi um fækkun félagsmanna:

 

„Þrátt fyrir fundahöld og viðræður við yfirmenn á hjartadeild LSH og góðar undirtektir þeirra um aðstoð við að fjölga félagsmönnum, hefur okkur orðið lítið ágengt á þeim vettvangi.  Félagsmenn eru nú um 3.100 og hefur því miður fækkað umtalsvert á undanförnum misserum frá því að vera um 3.550 þegar flest var, árið 2005. Starfsfólk LSH er í bestri aðstöðu til að kynna samtökin okkar fyrir þeim sem þangað hafa leitað lækninga. Og á sama tíma og LSH er stöðugt að óska eftir stuðningi Hjartaheilla við hin ýmsu verkefni og tækjakaup má þeim ljóst vera að kraftur og styrkur samtaka okkar fer mikið eftir því hversu fjölmenn samtökin eru. Einnig höfum við reynt að fá starfsfólk og stjórnendur á Reykjalundi til samstarfs um kynningu á samtökum okkar en það hefur því miður lítinn árangur borið. Það er því áfram eitt brýnasta verkefnið okkar, að reyna að fjölga félagsmönnum til að styrkja starfsemina‟.

 

Guðmundur sagði stjórn hafa haldið 5 bókaða fundi frá síðasta aðalfundi, auk fjölmargra um ýmis viðfangsefni. Þá hefur verið fylgst með lagabreytingum og öðru því sem haft gæti áhrif á hag og stöðu hjartasjúklinga. Sveinn Guðmundsson, lögmaður og varaformaður Hjartaheilla, hefur sinnt ýmsum lögfræðilegum málefnum fyrir samtökin, farið yfir lagafrumvörp sem þau hafa fengið til umsagnar og sent Alþingi álitsgerðir fyrir þeirra hönd. Þá nefndi hann breytingar sem gerðar voru á greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði á s.l. ári. Þetta nýja kerfi tók gildi 4. maí 2013 og voru í upphafi miklar vangaveltur um hvaða áhrif það hefði á skjólstæðinga samtakanna. Svo virðist að breytingin hafi verið hagstæð fyrir hjartasjúklinga og almennt leitt til lækkunar á lyfjakostnaði þeirra, enda lítið um kvartanir.

 

Síðustu daga hefur verið mikil umræða í fjölmiðlum og þjóðfélaginu um ástandið í heilbrigðisþjónustunni, húsnæði, tækjakost, læknaskort og biðlista. Guðmundur sagðist taka undir áhyggjur manna vegna ástands í heilbrigðisþjónustu og læknaskorts. Þó virðist svo sem þetta komi ekki alvarlega niður á hjartasjúklingum og þeir sem á bráðaaðgerðum þurfa að halda fái skjóta og góða þjónustu. Hjartaheill hefur líka, með aðstoð við kaup á tækjabúnaði, ekki síst hjartaþræðingartækjunum, reynt að leggja sitt af mörkum.

 

Stærsta verkefni Hjartaheilla var þátttaka í kaupum á nýju hjartaþræðingartæki fyrir LSH. Það tókst að standa við fyrirheit um 15 millj. kr. framlag, þrátt fyrir ómælda erfiðleika við að afla fjárins, auk þess sem tveir Lionsklúbbar gáfu eina milljón hvor og því var heildarframlag Hjartaheilla til tækjakaupanna kr. 17 millj. – en kostnaðurinn við átakið varð rúmar 6 millj. króna í auglýsinga- og markaðsmál, sem var mjög hátt en nýtist að hluta til kynningar á Hjartaheillum meðal almennings.

 

Áfram verður haldið að gefa út blaðið okkar VELFERÐ. Að undanförnu hafa komið út tvö blöð á ári og var sérstaklega vandað til afmælisblaðsins sem kom út í október á s.l. ári í tilefni 30 ára afmælis Hjartaheilla. Sveinn Guðmundsson, hefur undanfarin tvö ár ritstýrt blaðinu, en lét að eigin ósk af því starfi og við tók Pétur Bjarnason. Að undanförnu hefur verið unnið að næstu útgáfu fræðslubæklingsins „Hjartasjúkdómar – varnir, lækning, endurhæfing“. Hefur það tekið nokkru lengri tíma en áætlað var þar sem þessi útgáfa verður nokkuð breytt. Útgáfu Hjartahandbókarinnar verður hætt og kemur nauðsynlegt efni úr henni inn í nýja bæklinginn. Nú sér fyrir endann á þessu verki og er bæklingurinn kominn í prentun.

 

Samstarf Hjartaheilla við Hjartavernd heldur áfram og er einkum tengt Alþjóðlega hjartadeginum svo og „Go-Red“ verkefninu sem helgað er konum og hjartasjúkdómum. Undirbúningur að Alþjóðlega hjartadeginum er nú í fullum gangi. Hjartavernd óskaði eftir stuðningi samtaka okkar við kaup á nýju hálsæðaómtæki og var veittur styrkur upp á 5.5 millj. kr. sem nam um þriðjungi af kostnaði við þessi mikilvægu tækjakaup.

Þá ræddi formaðurinn um fjármálin. Söfnunarbaukarnir hafa gefið umtalsverðar og vaxandi tekur. Árgjöldin innheimtast þokkalega og jólakortin og blaðaútgáfan skila nokkrum tekjum. Þessir föstu tekjuliðir duga þó hvergi nærri til að standa undir þeim rekstri sem er í dag. Því þarf alvarlega að huga að þessum þætti og styrkja tekjuöflunina enn frekar. Arfgjafir frá velunnurum samtakanna hafa hins vegar verið umtalsverðar. Á síðasta ári fengu Hjartaheill umtalsverða upphæð í arf eftir tvo góða félagsmenn Hjartaheilla. Því er fjárhagur samtakanna góður en við göngum líka á hann árlega með almennum rekstri ef ekki tekst að styrkja reglubundna fjáröflun. Stuðningur landshlutafélaganna, með eftirgjöf á hlut þeirra í árgjaldi félagsmanna sinna, hefur haft afgerandi áhrif á fjárhagsstöðuna.

 

Á vormánuðum 2012 lauk mælingahringferð Hjartaheilla um landið með mælingum á Suðurnesjum. Nokkuð hefur verið um mælingar fyrir félagasamtök að undanförnu en stærsta átakið var þó mælingahelgi í Síðumúlanum dagana 24. – 26. maí 2013, en þá komu yfir 1.000 manns í Síðumúlann og var fjölmennið svo mikið að biðraðir mynduðust út á götu. Mælingarnar fara fram í samstarfi við hjúkrunarfræðinga og að undanförnu hefur verið í gangi sérstakt mælinga- og rannsóknarverkefni í samstarfi við Oddfellowregluna og Ólöfu Guðnýju Geirsdóttur, dr. í næringarfræði við LSH. Fyrir liggur sérstakt leyfi frá Persónuvernd og Vísindasiðanefnd til að stunda þessar rannsóknir. Því miður hefur ráðuneyti heilbrigðismála brugðist svo undarlega við, að styrkveitingar sem Hjartaheill hefur fengið til verkefnisins hafa verið felldar niður. Mælingunum hefur þó verið svo vel tekið af öðrum að þetta einkennilega viðhorf ráðuneytisins mun ekki verða látið stöðva verkefnið.

 

Þá minntist formaðurinn á golfmót Hjartaheilla sem hefur nú skapað sér fastan sess, haldið í ágúst á Bakkakotsvelli í Mosfellssveit undanfarin þrjú ár. Þá hafa bæði verið haldin hér jóla- og páskabingó og svokölluð „Pub Quiz“ kvöld eða uppákomur, sem allt er til bóta í félagsstarfi Hjartaheilla.

 

Sérstök Reykjalundarganga var gengin í tilefni af 30 ára afmæli Hjartaheilla. Gangan var táknræn að því leyti að upphafs- og endastaðir voru Reykjalundur og LSH með viðkomu á skrifstofu Hjartaheilla í Síðumúlanum. Gangan skyldi vera 30 km í tilefni 30 ára afmælisins og þar sem ekki eru 30 km milli þessara staða þurfti að taka sérstakan aukakrók út á Seltjarnarnes til að fylla upp í vegalengdina. Þátttaka var góð og gengu milli 40 og 50 manns, þar af 15 manns alla leiðina, 30 km. Aðalhvatamaður og skipuleggjandi var Kjartan Birgisson sem voru færðar sérstakar þakkir fyrir þennan atburð.

 

Guðmundur kvaðst vona að lokum að fundur þessi eigi eftir að verða bæði gagnlegur og skemmtilegur og til þess fallinn styrkja alla til frekari dáða í störfum fyrir samtökin og mikilvægt hlutverk þeirra.

 

Guðmundur R. Óskarsson gerðir grein fyrir reikningum Hjartaheilla 2013. Hagnaður af rekstrinum varð 13,6 milljónir, en samtökunum bárust arfsgjafir á árinu fyrir 28,6 milljónir og fjáröflun nam um 20 milljónum að frádregnum kostnaði. Af föstum fjáröflunarleiðum gefa söfnunarkúlurnar mest af sér, eða 5,7 milljónir en merkjasala, jólakortasala og hagnaður af útgáfu gáfu um sjö og hálfa milljón í aðra hönd. Styrkir og tækjagjafir á árinu voru alls um 20,6 milljónir króna. Eignastaðan er allgóð, og er eigið fé tæpar 36 milljónir nettó.

 

Óskar Árni Mar gerði grein fyrir reikningum Styrktarsjóðs hjartasjúklinga 2013. Hagnaður varð rúmlega 1,6 milljón króna, en tekjur sjóðsins eru af sölu minningarkorta og vöxtum af bankainnistæðum. Ekki var úthlutað úr sjóðnum á árinu til tækjagjafa eða styrkja, en peningaeign í árslok var rúmlega 17 milljónir króna.

 

Sveinn Guðmundsson varaformaður gerði grein fyrir einföldum á stjórnskipan Hjartaheilla, sem var samþykkt á síðasta aðalfundi fyrir tveimur árum. Hann sagði þetta i meginatriðum hafa gengið vel. Allmargar stjórnir hafa kosið að starfa áfram, en annars staðar væru til staðar tengiliðir, sem stjórn og starfsmenn gætu leitað til. Í framkvæmdinni hefði þessi breyting ekki orðið eins mikil og margir óttuðust í upphafi. Sveinn sagði að sjálfboðastarf væri á undanhaldi víðast hvar og þar væri mikil breyting frá fyrri árum. Þá sagði hann frá skipulagsbreytingum hjá ÖBÍ og innan SÍBS, sem meðal annars leiddi af sér að aðildarfélög SÍBS yrðu framvegis sjálfstæðir aðilar að ÖBÍ, í stað þess að SÍBS væri það fyrir þeirra hönd.

 

Í framhaldi af þessum dagskrárlið voru stuttar skýrslur deilda.

Kjartan Birgisson flutti stutta skýrslu Hjartaheilla á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnin var lögð niður vorið 2013 og verkefni deildarinnar flutt til skrifstofu Hjartaheilla. Sjóðir og bókhald deildarinnar eru í vörslu stjórnar Hjartaheilla. Áður hafði eignum deildarinnar verið varið til að gefa sjónvörp á Landspítala-Háskólasjúkrahús. Einnig sagði Kjartan frá félagsstörfum á vegum skrifstofunnar.

 

Ólafur Magnússon sagði stjórn enn starfa á Vesturlandi og ekki væru breytingar í vændum. Þar hefur ávallt verið aðstoðað vel við mælingastörf Hjartaheila í áranna rás.

 

Garðar Helgason, gjaldkeri í Hjartaheill á Eyjafjarðarsvæði sagði stjórn tæpast hafa verið starfhæfa þar um nokkurt skeið. Helstu störfin á vegum deildarinnar snúa að því að sinna söfnunarkúlum á svæðinu og hefur það verið ágætlega gert. Starfsemi lítil að öðru leyti.

 

Sigurður Aðalgeirsson sagði frá Hjartaheill í Þingeyjarsýslum. Stjórnarfundir eru reglulega en endurnýjun á sér ekki stað, því enginn vill fara í stjórn. Helstu störf eru skipulag og umsjón með svonefndri hjartaleikfimi, sem er tvisvar í viku yfir veturinn á Húsavík og Kópaskeri og svo hefur verið frá 1997. Lengst af hafa verið um 30 manns í leikfiminni en heldur dró úr í fyrravetur. Stjórnarmaður, sem búsettur var á Kópaskeri hefur nú flutt til Húsavíkur og ekki ljóst hvort það mun draga úr starfseminni eystra. Sigurður sagði Þingeyinga gjarnan vilja huga að endurnýjuðu samstarfi við Eyfirðinga sem var mjög gott á árum áður, en er nú nánast ekki neitt.

 

Friðrik Ingvarsson Hjartaheill Austurlandi sagði starfið vera dapurt og fjármunir nánast engir. Orðið langt frá síðasta aðalfundi en áformað er að halda hann bráðlega og þá yrði ákveðið með framhaldið, m.a. með tengilið í stað stjórnar. Friðrik sagði mjög erfitt að ná fólki saman, enda miklar vegalengdir á milli staða.

 

Björg Björnsdóttir Hjartaheill Suðurlandi sagði að félagsstarf væri virkt á vegum deildarinnar. Hjartagangan fer fram næsta sunnudag eins og verið hefur undanfarin ár, oftast sem næst Selfossi þar sem fjöldinn væri meiri. Þátttaka hefur verið allgóð. Stjórnarmenn hafa mætt á fundi hjá Hjartaheill og SÍBS, tekið þátt í fjáröflun, m.a. jólaskemmtun o.fl. Unglingar hafa starfað að fjáröflun og kvenfélögin hafa lagt sitt af mörkum. Merkjasala 2013 gaf yfir 800 þúsund króna og kvenfélagskonur gáfu líka 150 þúsund, sem voru sölulaun þeirra. Þessi upphæð rann til landssamtakanna. Á aðalfundi hafa jafnan verið fengnir fyrirlesarar og þar hefur verið góð mæting. Núverandi stjórn situr áfram og er ákveðin í að deildin muni ekki lognast út af á þeirra vakt. Þá eru fundir, göngur og aðrar samverustundir. Jólakort seljast ekki vel og þykir vanta upp á útlitið á þeim, mættu vera fallegri. Deildin hefur styrkt þjálfunarstöðina Styrk á Selfossi og sjúkrahúsið fram að þessu, en óvíst um áframhaldið.

 

Ólöf Sveinsdóttir Hjartaheill Suðurnesjum sagði að lítið starf hefði verið á síðasta ári. Þó hafa félagsmenn alltaf brugðist við beiðnum um fjáröflun eða aðstoð. Hún taldi heppilegt að árgjöldin rynnu óskipt til landssamtakanna, en þau gætu styrkt deildirnar eftir þörfum. Stjórnin er óvirk og aldur mjög hækkandi, jafnvel væru stjórnarmenn komnir vel yfir nírætt. Ólöf sagði að sér litist vel á hugmynd um tengiliði ef ekki tekst að yngja upp í stjórninni. Gefin voru hjartastuðtæki á íþróttavellina, sem þegar hafa bjargað lífi. Þá sagði Árni Einarsson frá merkjasölu sem útskriftarnemar í Fjölbrautarskólanum önnuðust og gekk misvel. Sagði einnig frá ýmsum þáttum starfsins.

 

Karl Roth frá Neistanum sagði starf þar með svipuðum annmörkum og hjá öðrum. Fastir liðir væru þó jólaball og fjáraflanir og stöku sinnum samkomur. Neistablaðið hefur gefið tekjur og góðar tekjur voru af Reykjavíkurmaraþoninu. Að auki komu til styrkir. Starfið felst að mestu leyti í því að styðja þá sem þurfa að fara í aðgerðir. Helstu tíðindi nýlega er fjölgun í fullorðinsdeildum, þ.e. hjartabörn sem eru orðin fullorðin, en þurfa þó á stuðningi að halda. Lögum Neistans var breytt og deild er starfandi fyrir þetta fólk.

 

Þá voru umræður um framsögu Sveins og talsmanna deilda.

Valbjörg Jónsdóttir spurðist fyrir um inneignir deilda eftir að stjórnir hefðu verið aflagðar. Sveinn sagði þær vera til staðar, þó þeim væri ekki ætlaður dálkur í ársreikningum.

 

Haraldur Finnsson lýsti þungum áhyggjum sínum af stöðu deilda og fjárhagsstöðu Hjartaheilla. Hann sagði að stjórnarmenn yrðu að horfa í eigin barm, ákveða hvað hægt sé að gera og framkvæma það sem allra fyrst.

 

Magnús Þorgrímsson sagðist telja vel mögulegt að endurreisa starf á Vesturlandi. Hann minnti á mælingastarfið þar og fræðslufundi sem haldnir hefðu verið. Það vantar að kalla fólk saman og fræða það. Slíkar samkomur eru yfirleitt sóttar og ætti að vera framlag landssambandsins ekki síður en einstakra félaga.

 

Sveinn minnti á mælingastarf sem skrifstofa og stjórn hefur staðið fyrir. Hann sagði stærsta vandamálið hversu nýliðun væri lítil og fátt kæmi frá spítölum í Reykjavík og Reykjalundi.

 

Velferð blaðaútgáfa. – Nýráðinn ritstjóri, Pétur Bjarnason, sagði frá áherslum sínum í útgáfu blaðsins, þar sem reynt verður að segja frá starfi Hjartaheilla og deildanna eftir föngum, svo sem verið hefur en ekki er að vænta mikilla stefnubreytinga í útgáfumálum. Áfram verður lögð áhersla á að blaðið skili auglýsingatekjum umfram útgáfukostnað. Hann óskaði eftir samstarfi við félagsmenn, ekki síst á landsbyggðinni, og að þeir sendu efni til birtingar í blaðinu. Þá minnti hann á starf Perluvina, sem er gönguhópur á vegum Hjartaheilla sem starfað hefur í fimmtán ár og gengur alltaf á laugardögum klukkan 11:00 frá Perlunni.

 

Annað líf. – Kjartan Birgisson sagði frá starfi þessara samtaka, sem starfað hafa í tengslum við Hjartaheill og skrifstofu þeirra. Hann sagði næsta verkefni vera að halda alþjóðlegan líffæragjafadag sem er 20. október, en vegna SÍBS þings 18. okt. verður honum frestað til 26. október. Slagorð dagsins er: „Segðu já við líffæragjöf“. Ýmislegt verður á dagskrá þessa dags til þess að ná athygli almennings og stuðningi við líffæragjafir. Markmið félagsstofnunarinnar var m.a. að veita Alþingi aðhald og reyna að fá ný lög um líffæragjafir samþykktar. Þau ættu að fela í sér þá meginbreytingu að samþykki fyrir líffæragjöf sé fyrir hendi hafi annað ekki verið tilgreint ef skyndilegt andlát ber að höndum.

 

Starfsáætlun Hjartaheilla veturinn 2014 -2015. Kjartan Birgisson kynnti hana í forföllum Ásgeirs Þórs Árnasonar. Ýmislegt er fyrirhugað á næstunni, m.a. mælingar á höfuðborgarsvæðinu og kynningarferð umhverfis landið með Hjartavernd og samtökunum Annað líf. Þar verði fyrirlestrar, kynningar og heilsufarsmælingar af ýmsu tagi. Næsti viðburður er Alþjóðlegi hjartadagurinn 29. september. Hvatti hann fundarmenn til að mæta, hver á sínu svæði og ganga.

 

Önnur mál. Valbjörg Jónsdóttir formaður uppstillingarnefndar leitaði eftir samráði við félagsmenn um störf nefndarinnar. Þá hvatti hún til þess að haldnir yrðu fleiri fræðslufundir, sem væru yfirleitt vel sóttir.

 

Guðmundur Bjarnason sagðist taka undir á gagnrýni sem fram hefði komið um störf stjórnar og hún væri um margt réttmæt. Hann gaf fyrirheit um að úr þessu yrði bætt á næstunni, samanber starfsáætlunina. Hann ræddi um rekstrarvanda Hjartaheilla , vék að ýmsum mögulegum fjáröflunarleiðum og sagðist opinn fyrir nýjum hugmyndum. Takist ekki að auka fáröflun þarf að fækka fólki og þar með draga úr þjónustu sem haldið hefur verið uppi. Slíkt væri neyðarúrræði. Þá lýsti hann miklum vonbrigðum með stuðning Alþingis, sem fer minnkandi ár frá ári. Hann sagði fundinn hafa verið málefnalegan og gagnlegan og lýsti ánægju sinni með störf hans, þakkaði fundarmönnum þátttökuna og sleit síðan fundi.

 

Að fundi loknum var sameiginlegur kvöldverður þar sem setið var yfir ljúffengum mat og spjallað saman fram á kvöldið.

 

Hér má sjá myndir frá fundinum

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *