Tilgangur lífsskrár

Lífsskrá
LífsskráTilgangur lífsskrár er að einstaklingur fái að deyja með reisn og að aðstandendur séu eins sáttir við ákvarðanir sem teknar eru við lífslok og kostur er. Með lífsskránni hefur einstaklingurinn sjálfur tekið ákvörðun um að ekki sé hafin meðferð eða meðferð haldið áfram sem ekki hefur í för með sér raunhæfa von um lækningu eða líkn og þá sérstaklega meðferð og rannsóknir sem einungis eru íþyngjandi og lengja dauðastríðið. Þess í stað er lögð áhersla á líknandi meðferð þar sem markmið er að láta sjúklingnum líða eins vel og kostur er.

Í lögum nr. 74/1997 er kveðið á um rétt sjúklings til að ákveða sjálfur hvort hann þiggur meðferð eða ekki. Engin ákvæði eru hins vegar sérstaklega um lífsskrá en fyrirfram ákvörðun af því tagi sem er í lífsskránni er hins vegar gefin út frá lagaákvæðum um skyldu landlæknis til að veita ráðgjöf og leiðbeiningar, sbr. 5. gr. 3. mgr. laga nr. 41/2007.

Hvað er lífsskrá?
Lífsskrá er eyðublað þar sem óskum fólks varðandi meðferð við lífslok er komið á framfæri við þær aðstæður þegar það sjálft getur ekki tekið þátt í ákvörðunum um þá meðferð vegna andlegs eða líkamlegs ástands.

Lífsskrá er gerð þegar fólk er til þess hæft og getur metið kosti sem til greina koma, verði viðkomandi svo andlega eða líkamlega skaðaður að litlar eða nær engar líkur eru taldar á bata eða á því að unnt sé að lifa innihaldsríku lífi á ný.

Lífsskránni er ætlað að lýsa yfir vilja einstaklings á þeim tíma sem hún er undirrituð. Hana ætti að hafa til hliðsjónar þegar viðkomandi er ekki lengur hæfur til að kveða upp úr um vilja sinn.

Mikilvægt er hafa hugfast að viljayfirlýsingin er gefin á ákveðnum tíma og sá vilji er ekki endilega til staðar síðar.

Í lífsskrá eru tvö mikilvæg atriði, annars vegar óskir um meðferð við lok lífs, geti viðkomandi ekki tekið þátt í ákvörðunum sjálfur, og hins vegar tilnefning talsmanns sem hefur verið valinn til að koma fram fyrir hönd viðkomandi. Talsmaður hefur verið valinn til að taka þátt í umræðum um óskir varðandi meðferð við lífslok, hvort heldur það er að þiggja, hafna eða draga til baka meðferð.

Talsmaður þarf að vera maður sem viðkomandi treystir vel og getur verið maki eða lífsförunautur, ættingi eða náinn vinur. Unnt er að tilnefna varamenn talsmanns geti sá sem tilnefndur er sem talsmaður ekki sinnt hlutverkinu af einhverjum ástæðum. Mikilvægt er að viðkomandi ræði óskir sínar við talsmann sinn þannig að hann viti eins vel og kostur er hverjar þær eru.

Embætti landlæknis heldur gagnaskrá um þá sem tilkynnt hafa landlækni vilja sinn. Sú skrá hefur ekki lagalegt gildi fremur en viljayfirlýsing einstaklinga um ákvörðun um meðferð við lífslok.

Af hverju er lífsskrá mikilvæg?
Tvær meginástæður eru fyrir því að skrifa undir lífsskrá. Annars vegar vilji fólks til að hafa sjálft stjórn á ákvörðunum sem teknar eru um meðferð við lok lífs þeirra. Hins vegar léttir lífsskráin þessum ákvörðunum af nánustu aðstandendum, en slíkar ákvarðanir eru oft mjög erfiðar fyrir þá hafi þeir ekki upplýsingar um óskir viðkomandi.

Jafnvel þótt enginn skoðanamunur sé milli aðstandenda getur aðkoma þeirra að ákvörðunum um líf og dauða verið þungbær og jafnvel skilið eftir sektarkennd meðal þeirra.

Ef viðkomandi segir engum óskir sínar mun enginn vita þær og slíkt getur boðið vandamálum heim. Lífsskrá auðveldar einstaklingum að koma óskum sínum á framfæri.

Hvernig á að fylla út viljayfirlýsingu um lífsskrá?
Lífsskrá þarf að undirrita í fjórum eintökum í votta viðurvist eins og fram kemur á meðfylgjandi eyðublaði. Viðkomandi heldur sjálfur einu eintaki og sendir eitt til landlæknis. Jafnframt fær talsmaður eitt eintak og mjög æskilegt er að heimilislæknir eða annar læknir einstaklingsins fái eintak.

Mælt er með því að gengið sé frá lífsskrá í samvinnu við lækni viðkomandi þótt það sé ekki skilyrði. Mikill akkur er hins vegar í því að ræða málið við lækni þannig að lífsskráin verði sem skýrust. Nauðsynlegt er að undirskrift sé vottuð af öðrum en talsmanni eða varamönnum hans.

Lífsskrár er ekki getið í íslenskum lögum og hefur því ekki gildi sem lögmætt plagg. Heilbrigðisstarfsfólk á því að hafa í huga að fara eftir þeim vilja sem fram kemur í lífsskránni á þeim tíma sem hún er gerð.

Unnt er að skipta um skoðun og fella lífsskrána úr gildi hvenær sem er. Þá er hægt að gera breytingar á tilnefningu talsmanns ef persónulegar aðstæður breytast í fjölskyldulífi, t.d. við giftingu, skilnað eða andlát.

Eyðublað til að fylla út lífsskrá og leiðbeiningar er að finna í reit efst til hægri á þessari síðu.

Ef áhugi er á að fylla út lífsskrá vinsamlegast hafið eftirfarandi í huga:

Hægt er að nálgast eyðublöðin og leiðbeiningar hér á vefnum. Sjá Eyðublað og leiðbeiningar efst til hægri á þessari síðu. Prenta þarf út fjögur eintök og undirrita þau öll.
A. Eitt eintak sendist Embætti landlæknis, Barónsstíg 47, 101 Reykjavík.

B. Einstaklingurinn geymir sjálfur eitt eintak.

C. Talsmaður fær eitt eintak.

D. Eitt eintak er sent heimilislækni eða öðrum lækni sem sinnir einstaklingnum eða er kunnugur aðstæðum hans.

2. Mikilvægt er að kynna talsmanni og, eftir því sem við á, fjölskyldu sinni óskir sínar og að hann kynni sér um hvað lífsskráin snýst.

3. Eintak Embættis landlæknis er geymt í gagnaskrá embættisins.

4. Unnt er að breyta lífsskránni hvenær sem er eða fella hana úr gildi. Ber þá að hafa samband við Embætti landlæknis.

Líffæragjöf
Ef einstaklingar hafa áhuga á að gefa líffæri má nálgast upplýsingar um það á síðunni Líffærargjafir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *