Framkvæmdastjóri Hjartaheilla segir verkfallið tímaskekkju

AR-150409416

AR-150409416„Það er alger tímaskekkja, að það séu verkföll hjá þessu fólki í dag“ segir Ásgeir Þór Árnason framkvæmdastjóri Hjartaheilla. Hann segir að koma verði í veg fyrir svona uppákomur, viku eftir viku eða mánuð eftir mánuð. Heilbrigðisstarfsfólk eigi allt að vera á góðum launum en þau eigi að vera ákveðin af sérstöku kjararáði.

Ásgeir Þór segir að það skapi mikið óöryggi meðal sjúklinga að þurfa að bíða, það lifi ekki allir biðina af.

Áhrif verkfallsins eru víðtæk á Landspítalanum en fresta þarf meginþorra skipulagðra skurðaðgerða og sérhæfðra meðferða, til dæmis, hjartaþræðingum, á meðan á verkfalli stendur. 

Ásgeir Þór segir þó ljóst að allar bráðaaðgerðir séu gerðar og þakkar það góðu heilbrigðiskerfi. Til dæmis sé nákominn ættingi hans, sem fékk alvarlegt hjartaáfall rétt fyrir páska að gangast undir opna hjartaskurðaðgerð í fyrramálið.

Margir gripu í tómt þegar þeir mættu á skrifstofur sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Lögfræðingar hitta enga skjólstæðinga enda í verkfalli og engum skjölum er þinglýst í verkfallinu. Þótt sagt hafi verið frá verkfallinu í fjölmiðlum áttuðu sig ekki allir á því, að stór hluti starfseminnar hjá sýslumanni myndi stöðvast. Hinir reyndu að flýta málum og örtröð skapaðist fyrir páska.Margir óánægðir hjá sýslumanni

Birna Markúsdóttir ritari segir að starfsfólkið hafi fengið að finna fyrir óánægju fólks í morgun þegar það mætti og greip í tómt.

Verkfallið hefur áhrif á giftingar, skilnaði, sifjamál, nauðungasölur, gjaldþrotabeiðnir, skiptingu dánarbúa og fasteignaviðskipti svo eitthvað sé nefnt.

Einu lögfræðingarnir á svæðinu eru sýslumaður og staðgengill hans, hinir sem eru á þriðja tug talsins eru í verkfalli. Þórólfur Halldórsson segir þó alveg skýrt að hann muni ekki ganga í störf undirmanna sinna í verkfallinu. Hann segir að margir hafi tjáð óánægju sína í morgun en ekki hafi komið til neinna uppþota. Flestir hafi reynt að sýna þessu skilning.

Stöð 2 og Vísir.is – Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar 7. apríl 2015.

Sjá frétt á Stöð 2 hér

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *