HJARTAHEILL, landssamtök hjartasjúklinga harma það ástand sem hefur skapast í heilbrigðiskerfi landsmanna, ekki síst á Landspítala – háskólasjúkrahúsi.
Uppsagnir hjúkrunarfræðinga og annarra starfsmanna undanfarna daga munu auka enn á þann vanda sem safnast hefur upp í verkföllum að undanförnu. Meirihluti hjúkrunarfræðinga á hjartaþræðingardeild LSH hefur nú sagt upp störfum með ófyrirséðum afleiðingum fyrir þá lífsnauðsynlegu starfsemi og þá hjartasjúklinga sem þurfa á bráðri aðstoð að halda.
HJARTAHEILL skora hér með á samningsaðila beggja vegna borðs að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná samningum áður en gerðardómur tekur til starfa í þeirri von að hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk LSH sem nú þegar hefur sagt upp störfum sjái sér fært að draga uppsagnir sínar til baka áður en enn alvarlegra ástand skapast.
Fyrir hönd stjórnar Hjartaheilla:
Guðmundur Bjarnason, formaður GSM 892 7624
Sveinn Guðmundsson, varaformaður GSM 863 8090