Minningargrein – Vilhjálmur B. Vilhjálmsson. F. 24. júní 1932 – d. 23. júlí 2015

220px-Christian cross.svg

220px-Christian cross.svgvbv minningargreinGóður vinur, traustur félagi og samstarfsmaður er látinn – hinsta kveðja frá stjórn og starfsmönnum Hjartaheilla.

Í dag, 5. ágúst, kveðjum við góðan vin og félaga, Vilhjálm B. Vilhjálmsson, fyrrverandi formann Hjartaheilla og Félags hjartasjúklinga á höfuðborgarsvæðinu.

 

 

Fyrir Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, var ómetanlegt að fá mann eins og Vilhjálm til liðs við samtökin, hin mikla reynsla hans á sviði félagsmála kom sér afar vel. Vilhjálmur var mikill baráttumaður og lagði sig allan fram um að ná góðum árangri í öllum þeim málum sem hann tók sér fyrir hendur. Það var sérlega gott að leita til Vilhjálms og það var afar gott að starfa með honum. Hann sá hlutina oft í nýjum búningi en virti ávallt skoðanir samstarfsmanna sinna.

Vilhjálmur var alla tíð mikill félagsmálamaður, starfaði með og veitti mörgum félagasamtökum forystu. Hann sat í stjórn Öryrkjabandalags Íslands frá 1981 til 1986 þar af formaður 1983 til 1986. Formaður Hjartaheilla á höfuðborgarsvæðinu frá 1998 til 2007 og í stjórn Hjartaheilla, landssamtaka hjartasjúklinga frá 1996 og formaður frá árinu 2000 til 2007. Vilhjálmur sat í stjórn SÍBS frá 2000 til 2002 og formaður stjórnar Reykjalundar árin 2000 til 2002. Síðustu árin var hann formaður laga- og skipulagsnefndar Hjartaheilla.

 

 

Vilhjálmur hlaut heiðursmerki Hjartaheilla, landssamtaka hjartasjúklinga, 2. júní 2007 fyrir framlag sitt til samtakanna og fyrir gæfuríkt og óeigingjarnt starf í þágu þeirra.

Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, kveðja tryggan félagsmann og þakka Vilhjálmi öll hans störf í þágu samtakanna og senda eiginkonu hans, Guðrúnu Árnadóttur og öðrum aðstandendum innilegrar samúðarkveðjur.

 

Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna Hjartaheilla,
Guðmundur Bjarnason, formaður
Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *