
SÍBS hefur sett á stofn verslun með stoðvörur og aðrar heilsutengdar vörur í húsnæði sínu að Síðumúla 6 ásamt netverslun. Verslunin er rekin án hagnaðarsjónarmiða (e. non-profit) og allar vörur eru valdar í samráði við fagaðila.
Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, segir að markmiðið með opnun verslunarinnar sé annars vegar að fólk geti treyst því að í vöruúrvalinu sé aðeins að finna gæðavörur, og hins vegar að geta átt þar viðskipti í fullvissu þess að eigandinn sé ekki að reka verslunina í hagnaðarskyni og að verð muni fara lækkandi þegar fram líða stundir.
„Non-profit felur í sér að allur rekstrarafgangur er nýttur í að auka vöruframboð og lækka verð til stuðnings baráttunni fyrir bættri lýðheilsu,“ er haft eftir Guðmundi í tilkynningu. „Þetta rekstrarform er nokkur nýlunda hér á landi en er vel þekkt í löndunum í kringum okkur. Það er nefnilega ekki sjálfsagt að eina erindi fyrirtækja á markað sé að hagnast, og í tilfelli SÍBS viljum gefa af okkur til þjóðarinnar um leið og reksturinn nær jafnvægi.“
Verslun SÍBS bætist í sífellt þéttriðnara net SÍBS í fræðslu- og forvarnastarfsemi sem nú innifelur útgáfu og upplýsingamiðlun, samstarf við stjórnvöld, ókeypis mælingar á blóðgildum í samvinnu við Hjartaheill, Reykjalundarnámskeið SÍBS fyrir almenning um heilbrigði og lífsstíl og Happdrætti SÍBS, að ógleymdum Múlalundi vinnustofu SÍBS og Reykjalundi endurhæfingarmiðstöð SÍBS.