
Landspítali hefur tekið í notkun nýja tegund af hjartagangráð sem er agnarsmár og settur inn með þræðingartækni gegnum nára en ekki skurðaðgerð eins og vanalegt er.
Gangráðurinn er frá fyrirtækinu Medtronic og er Landspítalinn eitt af völdum sjúkrahúsum í heiminum til að taka hann í notkun. „Gangráðsaðgerðir eru mjög algengar og við setjum inn um 300 gangráða árlega hér á Landspítala,“ segir Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á spítalanum, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Gangráðar samanstanda af tæki með tölvu og rafhlöðu sem komið er fyrir undir húð á brjóstkassa og tengist tækið hjartanu með leiðslum sem eru lagðar gegnum bláæðar. Þeir gagnast fyrst og fremst þeim sem eru með leiðslutruflanir í hjarta sem stuðla að hægum púls.
Nú er að koma á markað mjög lítill gangráður sem komið er fyrir beint í hjartanu. „Þessi nýja tækni er nokkuð byltingarkennd og í raun ótrúlegt hvað tekist hefur að smækka gangráðana og viðhalda sömu eiginleikum,“ segir hann en rafhlaða nýja gangráðsins dugi í tólf til fimmtán ár, sem er ívið meira en hjá hefðbundnum gangráð.
Morgunblaðið | 17.3.2016