Staðreyndir um vatnsdrykkju

vatn

vatn

Staðreyndir um vatnsdrykkju

Vatn líkamans er um 60% af líkamsþunganum að meðaltali og gegnir margvíslegum hlutverkum sem gerir það lífsnauðsynlegt manninum og öðrum lifandi verum. Meðal hlutverka vatns í líkamanum er að flytja úrgangsefni, sem verða til í efnaskiptum, með þvagi úr líkamanum. Einnig tapast vatn sem gufa frá lungum, frá húð sem sviti og með hægðum. Daglegt heildarvatnstap eftir þessum leiðum er að meðaltali um 2 – 2,5 lítrar á dag.
Við vitum öll að það er hollt og gott að drekka vatn. Þrátt fyrir það er margt sem við vitum ekki um vatnsdrykkju. Í þessum pistli ætla ég að svara nokkrum algengum spurningum varðandi vatnsdrykkju og leiðrétta nokkrar staðreyndavillur um hana.

Hversu mikið vatn á ég að drekka daglega? 

Flest okkar þurfa á milli 2 til 2,5 lítra á dag. En ef heitt er í veðri eða þú stundar hreyfingu þarftu meira.. Ef þú stundar mikla hreyfingu á sama deginum eða ert í miklum hita þarftu mögulega á einhverjum öðrum vökva að halda þar sem mikil vökvalosun á stuttum tíma veldur salt og natríumskorti sem lýsir sér í höfuðverk og slappleika. Gott er þá að drekka sportdrykki, þynntan ávaxtasafa eða annað sem gefur steinefni og vökva auk sykra eða kolvetna sem orkugjafa.Þrátt fyrir þessi sértilvik er hreint íslenskt vatn við flestar aðstæður besti drykkurinn.

 Ég þarf ekki að drekka vatn þar sem ég finn aldrei fyrir þorsta.

Þó þú finnir ekki fyrir þorsta þarf líkaminn vatn. Við getum meira að segja talið okkur vera svöng þegar við í raun erum þyrst. Þess vegna er gott ráð að fá sér vatnsglas fyrir mat hvort sem þú finnur fyrir þorsta eða ekki.

Hversu kalt á vatnið að vera? 

Hér eru skiptar skoðanir. Flestir sérfræðingar telja að kalda vatnið sé betra þar sem maginn frásogar kalt vatn hraðar en volgt. Einnig eru einhverjar rannsóknir sem benda til þess að kalt vatn hraði á fitubrennslunni. Volgt vatn er auðveldara að drekka í miklu magni. Hafðu vatnið bara á því hitastigi sem þér finnst best.

Ég þarf ekki að drekka vatn þar sem ég drekk fullt af kaffi og te? 

Te og kaffi eru allt í lagi í hófi, en mikið magn af þeim kemur ekki í staðinn fyrir vatn. Báðir þessir drykkir innihalda yfirleitt koffín sem er þvagörvandi og veldur vökvatapi.

Ég drekk alveg fullt af djús, hvers vegna þarf ég þá vatn?

Þrátt fyrir að það sé gott að fá glas af ávaxtasafa daglega þá er betra að drekka meira vatn. En ef þér finnst vatnið bara ekkert sérstaklega gott er fínt að setja örlítinn djús út í vatnið, eða blanda því helming og helming. Djúsinn er dýrari, yfirleitt hár í sykri og hefur slæm áhrif á tennurnar.

Ef ég drekk mikið af vatni, fæ ég þá bara ekki bjúg?

Nei. Margar konur fá bjúg stuttu fyrir tíðir og halda að það að drekka minna vatn minnki bjúginn. En í raun þurfa þær að drekka meira þar sem við litla vatnsdrykkja eykst natríummagn í líkamanum sem bindur vökvann. En það að drekka vatn losar líkamann við aukamagn af natríum.

Hvenær dagsins er best að drekka vatn?

Vatnsdrykkjuna áttu að dreifa yfir daginn. Það er ekkert gott að drekka of mikið af vatni í einu. Fáðu þér stórt vatnsglas 3-4 sinnum á dag og svo sopa og sopa yfir daginn. Ef þú finnur fyrir þorsta skortir líkamann vökva. Drekktu vatnið áður en þú finnur fyrir þorsta.

Grein þessi birtist fyrst á http://www.islenskt.is/ og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *