Þrjátíu ár frá fyrstu opnu hjartaaðgerðinni á Íslandi

hjartaadgerd a landspitala 2016 - Copy 1

Kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala. Mynd: Lilja Jónsdóttir.

Eftir Tómas Guðbjartsson,
prófessor og hjarta- og lungnaskurðlækni:

Þann 14. júní 2016 voru liðin 30 ár frá því fyrsta hjartaaðgerðin með hjarta- og lungnavél var gerð hér á landi. Aðgerðina framkvæmdu skurðlæknarnir Þórarinn Arnórsson og Hörður Alfreðsson á Landspítala en þeir höfðu líkt og stórt teymi heilbrigðisstarfsfólks af Landspítala fengið þjálfun í opnum hjartaaðgerðum við Háskólasjúkrahúsið í Uppsala. Síðan hafa verið framkvæmdar hátt í 7.000 opnar hjartaðgerðir á Íslandi, mest kransæðahjáveitu- og lokuskiptaaðgerðir en einnig aðrar flóknari hjartaðgerðir. Árangurinn er á pari við bestu spítala erlendis eins og rúmlega 40 vísindagreinar um árangur þessara aðgerða bera vitni um og birst hafa í erlendum og innlendum vísindaritum. Ýmislegt hefur breyst á þremur áratugum, t.d. taka aðgerðirnar styttri tíma og verkfæri eru fullkomnari. Engu að síðar er merkilegt hvað helstu skref í þessum aðgerðum hafa staðist tímans tönn, sem undirstrikar hversu góð meðferðin er. Meiri reynsla og framfarir í skurðlækningum hafa leitt til betri árangurs þar sem yfir 96% sjúklinga lifa aðgerðina. Þetta er staðreynd þótt sífellt stærri hluti sjúklinga sé aldrað fólk með alvarlegan hjartasjúkdóm. Framfarir í gjörgæslulækningum og hjúkrun hafa einnig átt mikilvægan þátt í bættum árangri. 

Erfið fæðing

Upphaf hjartaskurðlækninga á Íslandi sumarið 1986 var ekki auðveld fæðing og oft skorti á skilning stjórnvalda. Í fjölmörg ár á undan höfðu hundruðir íslenskra hjartasjúklinga verið sendir utan í hjartaaðgerð, aðallega til London en einnig til Cleveland í Bandaríkjunum. Þetta var augljóslega mikið óhagræði fyrir sjúklingana og fjölskyldur þeirra. Að auki voru alvarlegar sýkingar stórt vandamál hjá þeim sem gengust undir aðgerð í London. Mikill ágreiningur var á Alþingi meðal helstu ráðamanna um hvort ráðast ætti í þessar aðgerðir hér á landi og mörg ár tók að koma þessu metnaðarfulla verkefni á koppinn. Ekki hjálpaði til þegar þáverandi forsætisráðherra lýsti yfir opinberlega að þetta verkefni væri íslenskum læknum ofviða og ef hann þyrfti á hjartaaðgerð að halda væri London vænlegri kostur. Læknar á Landspítala og Borgarspítala gáfust þó ekki upp þrátt fyrir mótbyr. Haldið var áfram að þjálfa upp íslenska teymið í Svíþjóð og nauðsynleg tæki voru keypt til landsins, aðallega fyrir gjafafé. 

Fyrsta hjartaaðgerðin á Landspítala í júní 1996

Mynd úr fyrstu hjartaaðgerðinni með hjarta- og lungnavél á Íslandi, tekin laugardaginn 14. júní 1986 á Landspítala. Mynd: Rannveig Þorvarðardóttir.

Fyrsta aðgerðin í skjóli nætur

Eftir mikinn undirbúning var ráðist í fyrstu aðgerðina ,,í skjóli nætur” enda fjölmiðlar ekki látnir vita fyrr en nokkrum dögum síðar þegar ljóst var að allt hafði gengið að óskum. Um var að ræða hjáveituaðgerð þar sem tengt var framhjá þremur stífluðum kransæðum og þegar mest lét voru 18 manns á skurðstofunni. Sjúklingurinn hét Valgeir G. Vilhjálsson og hafði stuttu áður fengið alvarlegt hjartaáfall. Hann fékk síðar viðurnefnið Valgeir ,,fyrsti”. Fjórtán árum frá aðgerðinni var haft eftir honum í viðtali ,,að hann hefði aldrei verið smeykur við að vera sá fyrsti, enda hafi hann treyst læknum sínum mjög vel. Hann hafi hugsað með sér að þeir hlytu að vanda sig með fyrstu aðgerðina”. Valgeir náði undraverðum bata og gekk á Trölladyngju og Grindarskörð einum og hálfum mánuði síðar. Valgeir lést árið 2012.

Ekki bugast þrátt fyrir mótbyr efasemdasemda

Sagan um tildrög hjartaskurðlækninga á Íslandi sannar mikilvægi þess að gefast ekki upp þrátt fyrir mótbyr og skammsýni ráðamanna. Svipuð dæmi eiga því miður við um marga aðra þætti íslenskrar heilbrigðisþjónustu sem hefur ekki fengið þá athygli og skilning sem hún á skilið. Tafir á uppbyggingu Landspítala og endalausar deilur um staðsetningu hans er dæmi um hvernig starfseminni eru settar skorður vegna ákvarðanafælni enda öllum ljóst að núverandi húsnæði er löngu sprungið og úr sér gengið. 

Hjartaaðgerð í aðgerðarþjarka á Landspítala.

Arnar Geirsson framkvæmir hjáveituaðgerð með aðstoð aðgerðarþjarka á Landspítala. Til aðstoðar eru Tómas Guðbjartsson og Niel K. Mamlias skurðhjúkrunarfræðingur.

Framfarir fást aðeins með nýju blóði 

Það er engan veginn sjálfgefið að bjóða upp á flókna læknisþjónustu í 330.000 manna þjóðfélagi. Opnar hjartaaðgerðir eru dæmi um slíka starfsemi. Hjartaskurðdeildin á Landspítala er sú langminnsta á Norðurlöndum en bíður samt upp á nær allar aðgerðir sem stærri hjartaskurðdeildir gera. Hlúa verður að starfseminni hér á landi. Hjartaskurðlækningar eru gefandi en um leið krefjandi starf. Námið tekur þegar allt er talið hátt í 20 ár (6 ára læknanám, 1 kandidatsár, 2 ár sem deildarlæknir og loks 7-10 ár í formlegu sérnámi erlendis). Það er því engan veginn sjálfgefið að læknanemar leggi svo langt sérnám fyrir sig. Það verður því að gera þeim læknum sem leggja þetta langa nám á sig kleift að snúa aftur heim með því að bjóða upp á fyrirmyndar aðstöðu og tækjabúnað. Því án „nýs blóðs “ er ekki hægt að bjóða upp á nýjustu og bestu læknismeðferð. Á síðasta ári var stigið mikilvægt framfaraskref í skurðlækningum á Íslandi þegar aðgerðarþjarki (róbóti) var keyptur til landsins, að verulega leyti fyrir gjafafé. Þjarkinn nýtist best við krabbameinsaðgerðir á blöðruhálskirtli en kemur einnig að notum við aðrar tegundir aðgerða, m.a. einstaka hjartaðgerðir. Þessar sérhæfðu hjáveituaðgerðir eru ekki gerðar með þessum hætti annars staðar á Norðurlöndum, en Arnar Geirsson hjartaskurðlæknir hefur framkvæmt þessar aðgerðir á Landspítala.

Fyrstu hjartaaðgerðarinnar á Landspítala minnst árið 2006 þegar 20 ár voru liðin frá henni. Valgeir G. Vilhjálmsson sem gekkst undir aðgerðina ásamt starfsfólki á skurðlækningadeild Landspítala.

Árið 2006 þegar 20 ár voru liðin frá fyrstu hjartaskurðaðgerðinni á Landspítala var Valgeiri G. Vilhjálmssyni, sem gekkst undir aðgerðina, boðið til hófs á skurðlækningadeild spítalans. Á myndinni eru Hörður Alfreðsson læknir, Herdís Alfreðsdóttir hjúkrunarfræðingur, Bjarni Torfason yfirlæknir, Valgeir G. Vilhjálmsson, Þórarinn Arnórsson læknir og Hjörtur Sigurðsson læknir.

(Grein eftir Tómas Guðbjartsson hjartalækni)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *