Þingmenn vilja að gengið verði út frá „ætluðu samþykki“ til líffæragjafar

líffæa

líffæa

Þingmenn þriggja flokka hafa lagt fyrir Alþingi frumvarp um ætlað samþykki við líffæragjöf. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, er frummælandi málsins. Auk hennar eru Eygló Harðardóttir samflokkskona Silju Daggar, Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata ásamt Lilju Rafney Magnúsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur, þingkvenna VG skrifuð fyrir málinu. Verði frumvarpið að lögum yrði heimilt að fjarlægja líffæri úr látnum einstaklingum nema að hann hafi beinlínis lýst sig andvígan því fyrir andlát. Þó gerir frumvarpið ráð fyrir því að ekki megi fjarlægja líffæri úr látnum einstaklingi ef nánasti vandamaður leggst gegn því. 

Í gildandi lögum um brottnám líffæra er miðað við að líffæri eða lífræn efni verði ekki numin brott úr líkama látins manns nema fyrir liggi samþykki hans eða nánasta vandamanns hans fyrir því. „Því má segja að lögin miði nú við „ætlaða neitun“, þ.e. að hinn látni hefði ekki veitt samþykki fyrir brottnámi líffæris eða lífræns efnis að sér látnum nema annað liggi fyrir.  Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á 2. gr. laganna að miðað verði við „ætlað samþykki“, þ.e. gert verði ráð fyrir að hinn látni hefði verið samþykkur brottnámi líffæris eða lífræns efnis að sér látnum nema tilefni sé til að ætla annað. Frumvarpinu til grundvallar liggur sú afstaða að eðlilegra sé að gera ráð fyrir því að fólk vilji koma náunga í neyð til hjálpar með því að gefa líffæri og lífræn efni að sér látnum heldur en ekki,“ segir í umsögn frumvarpsins. Höfundur frumvarpsins segir í umsögn þess að staðið sé vörð um sjálfsákvörðunarrétt fólks um eigin líkama með því að gera óheimilt að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látinna einstaklinga hafi þeir lýst sig andstæða því eða brottnám af öðrum sökum talið brjóta í bága við vilja þeirra.

„Embætti landlæknis hefur nú komið á fót gagnagrunni þar sem unnt er að skrá afstöðu til líffæragjafar og er tryggilegast að andstöðu sé komið á framfæri með þeim hætti. Einnig bæri þó að virða það lægi áreiðanlega fyrir að hinn látni hefði lýst andstöðu sinni með öðrum hætti, t.d. við nánasta vandamann. Þá ætti ekki að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings væri af öðrum sökum sérstakt tilefni til að ætla að það hefði verið á móti vilja hans, t.d. ef fyrir lægi að það væri andstætt trúarbrögðum sem hann aðhylltist.

Forsenda frumvarpsins er að einstaklingar getið sjálfir tekið upplýsta afstöðu til gjafar líffæra eða lífræns efnis úr eigin líkama að sér látnum. Ekki er unnt að ætlast til þess af ósjálfráða einstaklingum. Brottnám líffæra eða lífrænna efna úr líkama þeirra að þeim látnum kynni því að vega að sjálfsákvörðunarrétti þeirra um eigin líkama. Því er lagt til að það verði óheimilt.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *