
Yfir sjö milljónir manna látast á ári hverju af völdum reykinga og annarrar tóbaksnotkunar, samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Þar er einnig varað við slæmum umhverfisáhrifum tóbaksframleiðslu, dreifingar og förgunar á slíkum vörum.
Beita þarf harðari aðgerðum til að stemma stigu við tóbaksneyslu, að mati stofnunarinnar. Hvetur hún þjóðir heimsins til að banna reykingar á vinnustöðum, í almannarýmum innandyra, að banna markaðssetningu tóbaks og til að hækka verð á sígarettum.
„Tóbak ógnar okkur öllum,“ sagði Margaret Chan, yfirmaður stofnunarinnar, í yfirlýsingu.
„Tóbak eykur fátækt, dregur úr efnahagslegri framleiðni, á þátt í slæmu fæðuvali á heimilum og mengar loft innanhúss,“ sagði hún.
Í skýrslunni, sem var gefin út í tilefni þess að dagur gegn tóbaki verður haldinn á morgun, varar stofnunin við því að dauðsföll vegna reykinga og annars tóbaks muni halda áfram að aukast.
Búist er við að einn milljarður manna látist af völdum tóbaksnotkunar á þessari öld.
„Árið 2030 munu yfir 80% dauðsfallanna eiga sér stað í þróunarríkjunum, sem tóbaksfyrirtæki hafa í auknum mæli snúið sér að í von um að komast inn á nýja markaði vegna hertra reglugerða í þróuðum ríkjum.“
Fengið af vef mbl.is