Dragðu úr líkum á hjartasjúkdómum með þessum ráðum læknisins

bigstock-Happy-mature-couple-having-red-85086608

bigstock-Happy-mature-couple-having-red-85086608

Þrengsli og stíflur í kransæðum eru meðal stærstu og alvarlegustu sjúkdóma mannkyns. En kransæðasjúkdómur hrjáir þúsundir Íslendinga og er algengasta dánarorsök okkar landsmanna.

Mataræðið mikilvægt

Þáttur mataræðis í tilurð og framgangi hjartasjúkdóma hefur verið hitamál en eitt af því sem einkennir nýrri ráðleggingar um heilsusamlegt mataræði er áhersla á sjálfan matinn fremur en einstök næringarefni.

Í stuttu máli dregur aukin neysla á ávöxtum, grænmeti, hnetum, trefjum og fiski úr áhættu á æðakölkunarsjúkdómi. Einnig er mælt með að takmarka neyslu mettaðrar fitu en auka neyslu fjölómettaðrar fitu og grófs korns. Ef fituminnkun leiðir hins vegar til meiri neyslu á fínunnum kolvetnum verður enginn ávinningur af mataræðismeðferðinni. Því er ráðlagt að takmarka neyslu einfaldra kolvetna sem eru í sykruðum drykkjum, sælgæti og sætabrauði.

Vín í hófi

Hollt mataræði minnkar líkurnar á æðakölkunarsjúkdómi og lækkar blóðþrýsting sem hefur jákvæð áhrif á blóðfitur og sykurefnaskipti. Vegna tengsla saltneyslu við hækkaðan blóðþrýsting er almennt ráðlagt að takmarka magn salts í fæðu. Áfengi í hófi verndar gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Ofneyslu ber þó að varast þar sem hún eykur meðal annars áhættu á háþrýstingi, hjartabilun og gáttatifi og mörgum öðrum sjúkdómum utan hjarta- og æðakerfisins.

Úr jurtaríkinu og úr sjónum

Það fæði sem rannsóknir hafa sýnt að helst tengist minni líkum á hjarta- og æðasjúkdómum, og jafnframt mörgum öðrum langvinnum og ósmitbærum sjúkdómum, einkennist af fjölbreyttu hráefni sem kemur að stórum hluta úr jurtaríkinu. Þar er ekki aðeins átt við grænmeti og ávexti, heldur einnig baunir, ertur, hnetur og fræ, gróft korn og jurtaolíur.

Einnig er áhersla á fisk og mjólkurvörur, einkum fituminni mjólkurvörur, en sætindi, kex, gosdrykkir og mikið unnar matvörur, svo sem beikon og feitar pylsur, telst óæskilegt fæði. Slíkt mataræði er ekki aðeins tengt minni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum heldur er þetta almennt talinn hollur matur sem veitir nauðsynleg næringarefni og önnur mikilvæg hollefni sem minnka líkur á ýmsum öðrum sjúkdómum.

Miðjarðarhafsmataræðið

Oft er vísað til Miðjarðarhafsmataræðisins sem ákjósanlegs fæðis enda býr það yfir mörgum þeim kostum sem tengjast minni líkum á hjarta- og æðasjúkdómum.

Miðjarðarhafsfæði einkennist af grænmeti og ávöxtum og notkun á ólífuolíu og öðrum fljótandi olíum í stað harðrar fitu. Hins vegar hafa rannsóknir einnig sýnt að neysla á grófu korni, fiski og fituminni mjólkurvörum tengist lægri tíðni kransæðasjúkdóms, án þess að það sé einkennandi fæði meðal Miðjarðarhafsþjóða fremur en annarra Evrópuþjóða.

Sama á við um hnetur og fræ. Notkun á hugtakinu Miðjarðarhafsfæði getur því verið ónákvæm, og er nú gjarnan haft um heilsusamlegt og hjartavænt fæði með alla ofangreinda eiginleika.

Þessi grein er úr nýju Kransæðabókinni sem kom út 2016.

Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *