Ráðleggingar um mataræði og Skráargatið

radleggingarummataraedi

radleggingarummataraedi

 

Í ráðleggingum um mataræði er lögð rík áhersla á mataræðið í heild sinni og á mat úr jurtaríkinu sem er trefjaríkur frá náttúrunnar hendi, svo sem grænmeti, ávexti, ber, hnetur, fræ, heilkornavörur, baunir og linsur, en einnig á feitan og magran fisk, olíur, fituminni mjólkurvörur og kjöt og vatn til drykkjar. Hins vegar er mælt með að takmarka neyslu á unnum matvörum sem innihalda oft mikið af mettaðri fitu, sykri eða salti. Sem dæmi má nefna gosdrykki, sælgæti, kex, kökur, snakk, skyndibita og unnar kjötvörur. Með þessu mataræði er talin minni hætta á flestum fæðutengdum langvinnum sjúkdómum. Að auki er nú meiri áhersla á gæði fitu og kolvetna frekar en magn hvors um sig. Það skiptir fyrst og fremst máli úr hvaða mat við fáum fituna og kolvetnin.

Nú er meiri áhersla en áður lögð á umhverfismál, ef ráðleggingunum er fylgt þá er það jákvætt fyrir umhverfið þar sem aukin neysla á jurtaafurðum og minni neysla dýraafurða hjálpar til við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Að auki er mælt með að skipuleggja vel innkaup og eldamennsku og þannig má draga úr matarsóun og vernda umhverfið.

Ráðleggingarnar í hnotskurn:

 1. Fjölbreytt fæði í hæfilegu magni.
 2. Ávextir og mikið af grænmeti. Borða 5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag eða minnst 500 g samtals. Safi telst ekki með í 5 á dag. Velja gjarnan gróft grænmeti eins og t.d. rótargrænmeti, spergilkál, hvítkál og blómkál.
 3. Heilkorn minnst tvisvar á dag. Æskilegt er að velja brauð og aðrar matvörur úr heilkorni.
 4. Fiskur tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Mælt er með að ein af fiskmáltíðunum sé feitur fiskur.
 5. Kjöt í hófi. Velja lítið unnið, magurt kjöt. Takmarka neyslu á rauðu kjöti við 500 g á viku. Takmarka sérstaklega neyslu á unnum kjötvörum.
 6. Fituminni og hreinar mjólkurvörur. Ráðlagt er að velja sem oftast fituminni, ósykraðar eða lítið sykraðar mjólkurvörur án sætuefna. Hæfilegt magn er 2 skammtar á dag.
 7. Mýkri og hollari fita. Feitur fiskur, lýsi, jurtaolíur (t.d. ólívuolía og rapsolía), hnetur, fræ og lárperur eru góðar uppsprettur hollrar fitu.
 8. Minna salt. Velja lítið unnin matvæli, enda eru mikið unnin matvæli yfirleitt saltrík og takmarka notkun á salti við matargerð.
 9. Minni viðbættur sykur. Drekka lítið eða ekkert af gos- og svaladrykkjum en vatn í staðinn og gæta hófs í neyslu á sælgæti, kökum, kexi og ís.
 10. Taka inn D-vítamín sem fæðubótarefni, annaðhvort lýsi eða D-vítamíntöflur.

Fyrir hverja eru ráðleggingarnar?

Ráðleggingarnar eru ætlaðar fullorðnum og börnum frá tveggja ára aldri. Fólk með sjúkdóma eða aðra kvilla, sem gætu haft áhrif á næringarefnaþörfina, og eldra fólk sem borðar lítið getur haft aðrar þarfir. Ráðleggingunum er ætlað að vera til viðmiðunar við skipulagningu matseðla fyrir hópa fólks, t.d. í skólum, á vinnustöðum, fyrir matvælaframleiðendur og þá sem annast fræðslu um næringarmál.

Auðvelt að borða hollt

Í ráðleggingunum er lögð áhersla á mataræðið í heild sinni frekar en einstök næringarefni, að fólk borði fjölbreyttan mat í hæfilegu magni, hafi reglu á máltíðum og njóti þess að borða. Góðar ábendingar eru um hvernig hægt er að fylgja þeim á auðveldan hátt frá degi til dags. Það ætti því ekki að vera flókið að borða hollt. Sjá nánar á www.landlaeknir.is/radleggingar

Skráargatið – Einfalt að velja hollara

Skráargatið er opinbert merki sem finna má á umbúðum matvara sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi samsetningu næringarefna. Markmiðið með Skráargatinu er að neytendur geti á einfaldan hátt valið hollari matvöru.

Vörur sem bera merkið eru hollari en aðrar vörur í sama flokki sem ekki uppfylla skilyrði til að bera merkið. Auk þess að vera upplýsandi fyrir neytendur hvetur slíkt merki matvælaframleiðendur til að þróa hollari vörur og stuðlar þannig að auknu úrvali af hollum matvælum á markaði.

Val á matvörum getur haft áhrif á heilsuna

Skráargatið auðveldar hollara val og þar með að fara eftir opinberum ráðleggingum um mataræði, því matvörur sem bera merkið verða að uppfylla ákveðin skilyrði varðandi samsetningu næringarefna:

 • Minni og hollari fita
 • Minni sykur
 • Minna salt
 • Meira af trefjum og heilkorni

Skráargatið er samnorrænt opinbert merki

Skráargatið hefur verið í notkun í Svíþjóð síðan 1989 og er orðið vel þekkt þar í landi. Árið 2009 var merkið einnig tekið upp í Noregi og Danmörku og árið 2013 á Íslandi. Þannig varð það að samnorrænu opinberu matvælamerki en skilgreiningarnar á bak við Skráargatið hafa þróast áfram og var ný reglugerð gefin út árið 2015 í löndunum fjórum með endurskoðuðum skilgreiningum. Slíkt norrænt samstarf er í samræmi við þróunina almennt á sviði næringar í norrænu löndunum, t.d. eru öll Norðurlöndin með samnorrænar næringarráðleggingar (e. Nordic Nutrition Recommendations) sem skilgreiningar fyrir Skráargatið byggja á. Á Íslandi standa Matvælastofnun og Embætti landlæknis að Skráargatinu og Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sjá um að farið sé eftir reglum um notkun merkisins. Framleiðendum er frjálst að nota Skráargatið á þær vörur sem uppfylla skilyrði til að bera merkið.

Skráargatið á enn fleiri matvæli

Nýjar skilgreiningar fyrir Skráargatið tóku gildi 1. september 2016, en með þeim eru nú gerðar strangari kröfur, sérstaklega hvað varðar salt í vörum. Matvælaflokkum hefur fjölgað og eru þeir nú samtals 33 í stað 25 flokka áður og geta því enn fleiri matvælaflokkar borið Skráargatsmerkið. Sem dæmi um ný matvæli sem geta borið Skráargatsmerkið eru sósur og ósaltaðar hnetur auk ýmissa glúten- og laktósalausra matvara í sumum matvælaflokkum reglugerðarinnar. Fleiri óforpökkuð matvæli geta nú borið Skráargatið en áður var. Auk óunnins fisks, grænmetis og ávaxta er hægt að nota Skráargatið á óunnið kjöt, brauð, hrökkbrauð og osta, sem ekki er forpakkað, að því tilskildu að vörurnar uppfylli skilyrði reglugerðarinnar fyrir notkun merkisins.

Sjá nánar á www.skraargat.is  

Elva Gísladóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnastjórar hjá Embætti landlæknis

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *