Góður árangur af kransæða-hjáveituaðgerðum á Íslandi

Góður árangur af kransæða-hjáveituaðgerðum á Íslandi

 

Góður árangur af kransæða-hjáveituaðgerðum á Íslandi

 

Á dögunum birtist vísindagrein í tímaritinu Scandinavian Cardiovascular Journal sem sýnir góðan langtímaárangur af kransæðahjáveituaðgerðum hér á landi. Fyrsti höfundur greinarinnar er Hera Jóhannesdóttir læknir en rannsóknin er hluti af stórri rannsókn á árangri opinna hjartaaðgerða á Íslandi sem staðið hefur í rúman áratug undir stjórn Tómasar Guðbjartssonar, prófessors og yfirlæknis á Landspítala.

 

Rannsókin tekur til rúmlega 1500 sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala á árunum 2001-2012 og var sjúklingunum fylgt eftir að meðaltali í tæp sjö ár. Leitað var að upplýsingum um fylgikvilla og endurinnlagnir á öllum sjúkrahúsum landsins og voru upplýsingar um lifun fengnar frá Dánarmeinaskrá Landlæknisembættis. Í ljós kom að alvarlegir fylgikvillar voru fátíðir, en aðeins 6% sjúklinganna þurftu að gangast undir kransæðavíkkun á fyrstu fimm árunum eftir aðgerð, tíðni nýs hjartaáfalls var 2% og enn færri, eða 0,3%, þurftu að gangast undir enduraðgerð. Langtímalifun reyndist einnig mjög góð, en fimm árum frá aðgerð voru um 90% sjúklinga á lífi. Það þykir gott í alþjóðlegum samanburði, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að flestir sjúklinganna voru í kringum sjötugt þegar aðgerðin var gerð. Þegar langtímalifun aðgerðasjúklinganna var borin saman við lifun annarra Íslendinga á sama aldri og af sama kyni reyndist hún nánast sú sama. Niðurstöðurnar eru ánægjulegar fréttir fyrir þá fjölmörgu einstaklinga sem gengist hafa undir kransæðahjáveitu hér á landi og aðstandendur þeirra en einnig lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir stórum hópi sjúklinga með kransæðasjúkdóm á Íslandi.

 

Kransæðasjúkdómur er algengasta dánarorsök Íslendinga og eitt helsta viðfangsefni íslensks heilbrigðiskerfis. Oftast er hægt að beita lyfjameðferð við sjúkdómnum eða kransæðavíkkun í þræðingu en við útbreiddum þrengingum, t.d. þegar allar þrjár stærstu kransæðar hjartans eru þrengdar, er beitt kransæðahjáveitu. Aðgerðin tekur oftast 3 – 4 klst. og að henni koma í kringum 10 manns; læknar, hjúkrunarfræðingar og starfsmenn á hjarta- og lungnavél.

 

Í dag eru rúmir þrír áratugir síðan fyrsta kransæðahjáveituaðgerðin var gerð á Íslandi. Frá þeim tíma hafa verið framkvæmdar yfir 4.000 slíkar aðgerðir á Landspítala, eða hátt í 150 aðgerðir árlega. Á síðustu árum hefur enn fremur vel á annan tug vísindagreina um árangur þessara aðgerða verið birtur í alþjóðlegum vísindatímaritum. Hingað til hafa rannsóknir hér á landi aðallega beinst að árangri þeirra á fyrstu 30 dögunum eftir aðgerð. Í þessari rannsókn er hins vegar litið til langtímaárangurs en slíkar rannsóknir hefur skort erlendis. Aðstæður til rannsókna á langtímalifun og fylgikvillum í kjölfar kransæðahjáveituaðgerða eru einstakar hér á landi þar sem auðvelt er að fylgja sjúklingunum eftir auk þess sem þýðið er hæfilega stórt en tekur þó til heillar þjóðar.

 

Aðrir höfundar greinarinnar auk Heru og Tómasar voru læknarnir Linda Ó. Árnadóttir, Jónas A. Aðalsteinsson, Tómas A. Axelsson, Martin I. Sigurðsson, Sólveig Helgadóttir, Daði Helgason, Helga R. Garðarsdóttir, Steinþór A. Marteinsson, Arnar Geirsson hjartaskurðlæknir og Guðmundur Þorgeirsson, hjartalæknir og prófessor.

Háskóli Íslands 5. september 2017 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *