Hvers vegna að gera erfðaskrá?

erfða

erfða

Hvers vegna að gera erfðaskrá?

 Lilja Margrét Olsen lögmaður segir að aðalástæðan fyrir því að fólk eigi að gera erfðaskrá, sé að tryggja að fólk í samsettum fjölskyldum geti setið í óskiptu búi, þó makinn falli frá.

 

Stjúpbörn geta farið fram á að búi sé skipt              

Lilja Margrét segir að þeir sem vilja tryggja að maki þeirra geti setið í óskiptu búi eftir þeirra dag, eigi að gera erfðaskrá til að koma í veg fyrir að erfingjarnir fari fram á að búinu sé skipt. Þetta á við ef fólk er í síðara hjónabandi og stjúpbörn eru til staðar. Stjúpbörnin geta farið fram á að búi sé skipt ef foreldri þeirra fellur frá, jafnvel þó stjúpforeldrið sé á lífi. Með ákvæði í erfðaskrá er hægt að tryggja að eftirlifandi maki geti setið í óskiptu búi við þessar aðstæður, en þá hvílir á honum sú kvöð að rýra ekki eignir búsins umfram það sem eðlilegt getur talist.

 

Börnin fái allan arfinn

Önnur ástæða þess að að það getur verið ástæða fyrir fólk að gera erfðaskrá, er að hjónaskilnuðum fjölgar. Lilja Margrét segir að margir átti sig ekki á því að arfurinn sem rennur sjálfkrafa til barna þeirra, rennur til þeirra sem hjúskapareign. Arfurinn kemur þá til helmingaskipta við hjónaskilnað. Ef menn geri erfðaskrá geti þeir búið svo um hnútana að arfurinn verði séreign barnsins sem erfir.

 

Hægt að ráðstafa þriðjungi eigna annað

Þriðja ástæðan fyrir því að menn gera erfðaskrár, er sú að fólk hefur rétt á að ráðstafa þriðjungi eigna sinna til annarra en lögerfingja. Hafi menn áhuga á að arfleiða til dæmis Hjartaheill eða öðrum góðgerðar eða líknarfélögum að eignum sínum, geta þeir gert það með erfðaskrá, en þó er aldrei hægt að ráðstafa meira en þriðjungi eignanna með þessum hætti. Lögerfingjar fá ævinlega tvo þriðju hluta.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *